Íslenski boltinn

Guðmundur: Við verðum að vinna saman allir sem einn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss.
Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss. Mynd/Stefán
Guðmundur Benediktsson þjálfari Selfoss var ekki ánægður með spilamennsku sinna manna í 2-0 tapi gegn FH í kvöld. FH var mun sterkari í leiknum og var lítil ógn af Selfyssingum og ekki mátti miklu muna að FH bættu við mörkum.

„Við vorum undir á öllum sviðum knattspyrnunnar og fengum hér kennslu. Það er bara vonandi að menn taki einhvern lærdóm hér. Við gerðum okkur vel grein fyrir því fyrir að við þyrftum að eiga okkar besta leik til að taka eitthvað úr þessu. Við vorum hins vegar langt frá því FH spilaði mjög vel á köflum og fór oft illa með okkur."

Lið Selfoss byrjaði mótið vel, þeir náðu í 6 stig af 9 mögulegum í fyrstu þremur umferðunum en hafa nú tapað 4 leikjum í röð. Guðmundur er þó ekki áhyggjufullur að þetta setjist í ungan og óreyndan hóp sinn.

„Ég held að þetta muni ekki hafa gífurleg áhrif. Við vissum að þetta yrði gríðarlega erfitt tímabil og þótt við byrjuðum vel þá vissum við að við myndum ekki vinna alla leiki. Núna erum við búnir að tapa nokkrum leikjum í röð en menn þurfa bara að halda áfram að vinna vinnuna sína. Við verðum að vinna saman eins vel og við getum, allir sem einn. Ég veit að við getum gert mun betur en þetta og við verðum að gera það."

Næsti leikur Selfyssinga er út í eyjum gegn ÍBV og vill Guðmundur meina að þeir þurfi að eiga mjög góðan leik til að taka einhver stig þar.

„Við stefnum alltaf á þrjú stig en það verður gríðarlega erfiður leikur. ÍBV liðið er mjög sterkt eins og það hefur sýnt framan af þessu móti, við þurfum því að eiga mjög góðan leik til að ná einhverju úr þeim leik," sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×