Íslenski boltinn

Gummi Ben: Þetta gefur okkur þrjú stig og það er mikið fyrir okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss
Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss
Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, hélt greinilega rosalega ræðu í hálfleik á leik liðsins við Keflavík í kvöld. Keflavík var með öll völd á vellinum og 2-0 forustu í hálfleik en Selfoss skoraði þrjú mörk í seinni hálfleik og tryggði sér gríðarlega mikilvægan sigur.

„Ég er gríðarlega stoltur af strákunum og hér sýndu menn ótrúlegan karakter í seinni hálfleik. Við rúlluðum aðeins yfir það í leikhléinu hvernig menn vildu muna eftir fyrsta leiknum á þessum velli og það sýndi sig bara í seinni hálfleik hvernig við ætluðum að muna eftir honum. Þetta var frábær endurkoma gegn sterku Keflavíkurliði sem fór illa með okkur í fyrri hálfleik. Við sýndum sem betur fer klærnar í seinni hálfleik, gerðum þrjú góð mörk og erum gríðarlega sáttir," sagði Guðmundur.

„Keflavík spilaði feykivel í fyrri hálfleik og betur en við. Í seinni hálfleik vorum við bara sterkari aðilinn. Maður getur kannski ekki ætlast til þess að gera þrjú mörk í einum hálfleik á móti svona liði eins og Keflavík en við gerðum það í dag og maður getur því ekki annað en verið glaður og gríðarlega stoltur," sagði Guðmundur sem var ánægður með framherjana Viktor Unnar Illugason og Viðar Örn Kjartansson sem gerðu útslagið í lokin.

„Viktor gerir mark og leggur upp mark fyrir Viðar. Viðar nær í vítið og skorar síðan sigurmarkið. Viðar er frábær knattspyrnumaður og frábær sóknarmaður. Hann er að koma úr erfiðum meiðslum en ég vissi að hann yrði hungraður á sínum velli og í sínu bæjarfélagi að koma hér inn og skora í sínum fyrsta leik á þessum velli," sagði Guðmundur.

Og hvaða þýðingu hefur þetta fyrir Selfossliðið?

„Þetta gefur okkur þrjú stig og það er mikið fyrir okkur," svaraði Guðmundur að bragði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×