Enski boltinn

Liverpool gæti þurft að selja Gerrard eða Torres

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, hefur viðurkennt að svo kunni að fara að Liverpool neyðist til að selja eina af stórstjörnum sínum. Það þýðir að annað hvort Steven Gerrard eða Fernando Torres gæti verið á förum.

Hinir bandarísku eigendur félagsins eru að leita að kaupendum að félaginu en gangi það ekki og félagið fái enga peninga inn í reksturinn þarf félagið líkast til að selja.

„Ég held ekki að við þurfum að selja stórstjörnu en það veltur á því hvort við fáum fjárfesta þannig að ég get ekki tryggt að við sleppum því að selja eina af okkar stærstu stjörnum," sagði Benitez.

„Stundum þarf að selja einhverja leikmenn sem eru lítið að spila en það skilar ekki miklum peningum í kassann."

Benitez segir enn fremur að félagið þurfi að styrkja sig í stað þess að selja en hann verður væntanlega ekki maðurinn sem tekur ákvörðun um þau mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×