Innlent

Fólk kjósi ef vill eða sitji heima ef vill

Sigmundur davíð og Steingrímur Færi ég að gefa kjósendum leiðbeiningar, væri eins víst að formaður Framsóknarflokksins teldi þær vitlausar og skaðlegar, sagði Steingrímur J. Sigfússon og segir að valdið sé kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem verður haldin á morgun. Fréttablaðið/GVA
Sigmundur davíð og Steingrímur Færi ég að gefa kjósendum leiðbeiningar, væri eins víst að formaður Framsóknarflokksins teldi þær vitlausar og skaðlegar, sagði Steingrímur J. Sigfússon og segir að valdið sé kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem verður haldin á morgun. Fréttablaðið/GVA

„Við skulum láta fólkið í landinu hafa það eins og það vill. Kjósa ef það vill eða sitja heima ef það vill,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á Alþingi í gær. Þar var hann krafinn svara um þjóðaratkvæðagreiðslu morgundagsins um Icesave-lögin.

Stjórnarandstaðan vildi vita hvort hætt yrði við kosninguna. Eins var kallað eftir leiðsögn Steingríms um hvort hann teldi að fólk ætti að kjósa og hvort hann tæki ekki undir að hagsmunum þjóðarinnar væri best borgið með því að fólk mæti á kjörstað og segði nei.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði að allar tilraunir til að hætta við kosninguna á laugardag yrðu felldar af stjórnarandstöðunni og hvatti Steingrím til að taka af öll tvímæli um að ekki stæði til að hætta við atkvæðagreiðsluna.

„Það hefur alltaf legið fyrir að þessi kosning færi fram nema breyttar aðstæður byðu upp á annað,“ sagði Steingrímur.

„Nú er tíminn runninn frá okkur í þeim efnum.“ Aldrei hafi hvarflað að neinum að hætta við atkvæðagreiðsluna í ágreiningi við stjórnarandstöðuna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði gott að Steingrímur tæki af tvímæli um þetta.

Hins vegar skipti máli hvernig staðið sé að undirbúningi og kynningu þessa merkisatburðar. Best væri að ríkisstjórnin stuðlaði að því að niðurstaðan yrði sem afdráttarlausust. Þá væri rétt að slíta samningaviðræðum og kalla samninganefnd Íslendinga heim þar til niðurstaða kosningarinnar liggur fyrir.

„Ég mun ekki ekki kalla nefndina heim meðan hún sjálf telur ástæðu til að vinna áfram að málinu,“ sagði Steingrímur „Það þarf alltaf að leysa þetta mál. Það hverfur ekki þótt menn segi nei á laugardaginn.“

Færa megi rök fyrir því að samningsstaða Íslands verði aldrei sterkari en nú, dagana fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Það er alls ekki gefið að samningsstaðan verði betri þegar þrýstingur vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar er að baki eftir helgi,“ sagði Steingrímur.

Hann sagðist ekki ætla að gefa kjósendum nein fyrirmæli: „Kjósandinn ákveður sjálfur hvort hann fer á kjörstað og hvort hann segir já, nei eða situr hjá,“ sagði Steingrímur.

peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×