Enski boltinn

Henry skoraði á móti Tottenham í fyrsta leiknum með New York Red Bulls

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry fagnar marki sínu í nótt.
Thierry Henry fagnar marki sínu í nótt. Mynd/AP
Thierry Henry var á skotskónum í fyrsta leiknum sínum með New York Red Bulls í æfingaleik í Bandaríkjunum í nótt. Tottenham-liðið svaraði hinsvegar með tveimur mörkum og vann leikinn 2-1.

Thierry Henry kom New York Red Bulls í 1-0 eftir 25 mínútna leik en fór síðan útaf í hálfleik. Tottenham tók yfir leikinn í seinni hálfleiknum, Robbie Keane jafnaði á 62. mínútu og Gareth Bale skoraði síðan sigurmarkið tíu mínútum síðar.

„Mörkin eiga eftir að koma hjá mér. Ég fékk frábærar móttökur og áhorfendurnir fögnuðu í hvert skipti sem ég fékk boltann. Það var mikilvægt fyrir mig að líða eins og ég væri heima hjá mér," sagði Thierry Henry eftir leikinn.

Harry Redknapp var í léttu skapi eftir leikinn. „Þessi ungi strákur hjá þeim, Henry, lítur út fyrir að geta átt bjarta framtíð," grínaðist Harry Redknapp. „Hann var frábær og var í öðrum klassa. Hann er enn heimsklassa leikmaður. Við vorum heppnir að vinna þennan leik en við stóðum okkur ágætlega miðað við að vera nýbyrjaðir að æfa," sagði Redknapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×