Innlent

Vilhjálmur: Ekki við hæfi að fyrirtæki Pálma dreifi gjöfum

Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason, lektor, segist ekki vilja þiggja gjafir frá fyrirtæki í eigu manns sem hafi sennilega orðið uppvís að því að tæma banka. En hann neitaði að taka við flugmiða frá Iceland Express í gærkvöldi eftir sigur með liði sínu í spurningakeppninni Útsvar á Ríkissjónvarpinu. Hann segir ekki við hæfi að slíkt fyrirtæki dreifi gjöfum með þessum hætti.

Vilhjálmur Bjarnason, lektor og hluthafi Glitnis var í sigurliði Garðabæjar í spurningakeppninni Útsvar sem fór fram á RÚV í gærkvöldi. Í verðlaun var ferðaávísun frá Iceland Express, sem er flugfélag í eigu Pálma Haraldssonar fjárfestis. Pálmi er grunaður um að hafa misbeitt valdi sínu í Glitni til að hagnast á því persónulega, eins og greint hefur verið frá í fréttum í vikunni. Vilhjálmur neitaði að taka við ferðaávísuninni.

„Ég tel það bara ekki vera við hæfi að fyrirtæki sem er í eigu manns sem hefur orðið uppvís að sennilega að tæma banka að hann sé að dreifa gjöfum með þessum hætti. Ég er allavega ekki í standi til að þiggja þær gjafir. Ég tapaði verulegum fjármunum á gjaldþroti Glitnis og það hefur verið sýnt fram á hvernig tekið var út úr bankanum," segir Vilhjálmur.

Í gærkvöldi var stofnuð Facebook síða undir heitinu „Vilhjálmur Bjarnason með prinsippin í lagi." Í hádeginu höfðu um 600 manns skráð sig á síðuna. Vilhjálmur segist hafa fengið mikil viðbrögð.






Tengdar fréttir

Vilhjálmur Bjarnason neitaði að taka við verðlaunum frá Iceland Express

Garðabær sigraði í spurningakeppninni Útsvar sem fram fór á Ríkisútvarpinu í kvöld. Vilhjálmur Bjarnason, lektor við Háskóla Íslands, var í sigurliðinu. Hann neitaði að taka við hluta verðlaunanna sem í boði voru fyrir sigurliðið. Um var að ræða ferðaávísun frá Iceland Express.

Vilhjálmur hefur áður deilt á Iceland Express

Með táknrænni ádeilu sinni í þættinum Útsvari í kvöld á Iceland Express, og þó einkum Pálma Haraldsson eiganda þess, var Vilhjálmur Bjarnason ekki í fyrsta sinn að deila á flugfélagið. í grein sem hann skrifaði árið 2003 benti hann á að félagið væri ekki með íslenskt flugrekstrarleyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×