Innlent

Dæmdir fyrir kannabisræktun en fá að halda peningunum

Valur Grettisson skrifar
Mennirnir voru með gríðarlega kannabisræktun á Suðurlandi. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Mennirnir voru með gríðarlega kannabisræktun á Suðurlandi. Myndin tengist ekki fréttinni beint.

Tveir karlmenn á þrítugsaldrinum voru dæmdir í 20 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands dag fyrir stórfellda kannabisræktun. Aftur á móti féllst dómari ekki á að gera tæpar tólf milljónir króna, sem fundust við húsleit, upptæka, né rúmlega 7000 evrur sem fundust einnig í fórum mannanna.

Þriðji maðurinn sem var ákærður var sýknaður öllum sökum.

Mennirnir tveir játuðu undanbragðalaust að hafa gerst sekir um að rækta allt að 500 kannabisplöntur í útihúsi við Bala í Þykkvabæ, Rangárþingi ytra og hafa staðið að ólögmætri ræktun á kannabisplöntum allt fram til mars 2009 er lögregla fann ræktunaraðstöðuna við húsleit.

Ekki var kært fyrir fíkniefnasölu í málinu og því lá ekkert fyrir um það hvort mennirnir hefðu fengið uppskeru af plöntunum. Það er þó ekki útilokað í dómnum. Þar af leiðandi taldi dómur að ekki hefðu verið færðar sönnur á að hagnaður hefði orðið af brotunum þrátt fyrir að þau væru almennt til þess fallinn að skila miklum ávinningi.

Annar mannanna sagði í réttarsal að féð sem fannst hefði ekki verið afrakstur fíkniefnasölu, heldur hefði hann unnið mikið svarta vinnu. Hann sagðist hafa lagt vel fyrir og að auki stundað fjárhættuspil og að hann væri „almennt mjög fégráðugur maður."

Báðir mennirnir eiga talsverðan afbrotaferil að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×