Fyrirsagnirnar í enskum fjölmiðlum í dag fjalla allar um skelfilega frammistöðu enska landsliðsins á HM í Suður-Afríku.
England féll í gær úr leik á HM með því að tapa 4-1 fyrir Þýskalandi í 16-liða úrslitunum. Þetta var versta tap Englands í 82 leikjum liðsins á úrslitakeppni stórmóts frá upphafi.
Götublaðið The Sun sagði leikmenn hafa brugðist landi sínu og að varnarleikurinn hafi ekki verið til staðar í skelfilegu ensku landsliðið.
Það er ekkert sem afsakar frammistöðu leikmanna, sagði The Independent, og Daily Express sagði frammistöðuna einfaldlega hörmulega. Daily Star sagði liðið getulaust og óumdeilanlega lélegt.
The Guardian sagði leikmenn hafa verið flatfóta og Daily Mail sagði að leikmenn hefðu allir sem einn gefist upp.
Flest eru blöðin sammála um að markið sem Frank Lampard skoraði en fékk ekki að standa sé ekki nóg til að afsaka það sem gerðist gegn Þjóðverjum. Sökin liggur hjá Fabio Capello landsliðsþjálfara.
The Sun hvetur hann til að hætta og götublöðin The Star og Express segja að það sé kominn tími til að fá enskan þjálfara á ný.