Innlent

Yfir 700 sérfræðingar í hönnunarkeppninni

Tilkynnt um niðurstöður.
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra var viðstödd þegar niðurstöður forvalsins voru kynntar í gær.
fréttablaðið/gva
Tilkynnt um niðurstöður. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra var viðstödd þegar niðurstöður forvalsins voru kynntar í gær. fréttablaðið/gva

Yfir 700 íslenskir sérfræðingar á byggingarsviði og flestar stærstu arkitekta- og verkfræðistofur landsins taka þátt í hönnunarsamkeppni nýs Landspítala við Hringbraut.

Tilkynnt var um niðurstöður forvals samkeppninnar í gær.

Alls bárust sjö umsóknir og uppfylltu sex teymi tilskildar hæfniskröfur.

Fimm teymum verður boðið að taka þátt í hönnunarsamkeppninni en ábyrgðaraðilar þeirra eru Mannvit hf., Almenna verkfræðistofan hf., TBL arkitektar ehf., Verkís hf. og Efla hf.

Fjögur fyrstnefndu teymin hlutu fullt hús stiga í hæfismatinu, 180 stig, og fimmta teymið hlaut 160 stig en lágmarksstigafjöldi teymis til að teljast hæft var 135 stig.

Meginforsenda hönnunarsamkeppninnar er að ljúka sameiningu stóru spítalanna á höfuðborgarsvæðinu þannig að starfsemi Landspítala í Fossvogi flytji á Hringbraut.

Samkeppnin er tvíþætt og tekur annars vegar til áfangaskipts skipulags lóðar Landspítala við Hringbraut í heild og hins vegar til útfærslu á fyrsta áfanga þess sem er spítalastarfsemi í 66 þúsund fermetra nýbyggingu. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×