Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Áttum sigurinn skilinn

Stefán Árni Pálsson skrifar

,,Þetta er gríðarlegur léttir fyrir okkur Valsara,“ sagði Gunnlaugur Jónsson , þjálfari Vals,eftir sigurinn  í kvöld. Valsmenn unnu 0-1 sigur á Fylki í Árbænum í 16.umferð Pepsi-deildar karla.

,,Það eru heilir tveir mánuðir síðan við sigruðum leik og því er þetta virkilega sætt. Við áttum sigurinn svo sannarlega skilið og börðust alveg eins og ljón,“ sagði Gunnlaugur.

,,Leikurinn var mjög kaflaskiptur, en mér fannst við byrja leikinn betur. Fylkismenn áttu nokkra virkilega góða spretti um miðjan fyrri hálfleik, en við náðum að skora mark rétt fyrir lok fyrri hálfleiks,“ sagði Gunnlaugur.

,,Ég er sérstaklega ánægður með síðari hálfleikinn hjá okkur en liðið hefur verið í miklum vandræðum þegar líður á leikina hjá okkur í sumar. Við náðum að halda marki okkar hreinu annan leikinn í röð og það er frábært,“ sagði Gunnlaugur.

,,Það sem skilaði þessum sigri í kvöld var að við höfðum meiri vilja til þess að ná í öll stigin. Við unnum flest öll skallaeinvígi í leiknum og þegar mínir menn fóru í návígi þá var meiri ákefð í þeim,“ sagði Gunnlaugur.

Næsti leikur Valsmanna er við KR-inga og því um sannkallaðan Reykjavíkurslag að ræða.

,,Leikurinn í kvöld gefur okkur mikið sjálfstraust og það verður gott að fara með það veganesti í leikinn gegn KR í næstu umferð,“ sagði Gunnlaugur Jónsson ,þjálfari Valsmanna, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×