Íslenski boltinn

Kristján Ómar: Höfum fengið virðingu frá liðum í sumar en ekki stigin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukamaðurinn Kristján Ómar Björnsson.
Haukamaðurinn Kristján Ómar Björnsson.
Haukar sitja einir á botni Pepsi-deildar karla og eru ekki enn búnir að ná að vinna leik þrátt fyrir að það sé komið fram í sextándu umferð. Haukar töpuðu 0-5 á "heimavelli sínum" á Vodafone-vellinum í kvöld.

„Þetta fór mjög illa. Vendipunkturinn í leiknum var að ná ekki að skora úr þessu víti. Við byrjuðum seinni hálfleikinn sterkt og vorum með smá byr í seglunum. Ég er viss um að vítið hefði komið okkur inn í leikinn en í staðinn fáum við á okkur þriðja markið í andlitið og þá kemur uppgjöf í liðið," sagði Haukamaðurinn Kristján Ómar Björnsson.

Guðjón Pétur Lýðsson, besti maður Hauka, átti möguleika á að minnka muninn í 2-1 á 52. mínútu en lét þá Bjarna Þórð Halldórsson, markvörð Stjörnunnar verja frá víti.

„Þeir ganga á lagið og spila ljótasta en hugsanlega árangursríkasta fótboltann í deildinni þegar hann virkar hjá þeim. Það er ekki fallegur fótbolti sem gefur stig og þeir sýndu það í dag," sagði Kristján Ómar.

„Við vorum búnir að missa einbeitinguna í lokin sem var skiljanlegt þar sem við vorum komnir með þrjú mörk í andlitið og erum lið sem er ekki búið að vinna leik," sagði Kristján.

„Við opnuðum seinni hálfleikinn sterkt eftir frekar slakan fyrri hálfleik hjá báðum liðum. Tempóið í fyrri hálfleik var mjög dapurt en okkur tekst alltaf einhvern veginn að fá á okkur mörk. Það er uppskrift að því að tapa leikjum," sagði Kristján og bætti við: „Við erum svona í sömu hringeykjunni og náum ekki að vinna okkur út úr því," sagði Kristján Ómar.

„Fyrir mótið horfði ég alltaf á þetta sem 22 leiki fyrir þennan hóp og þetta félag til þess að ná sér í reynslu í efstu deild. Það eru enn fimm leikir eftir eða einn fjórði af mótinu. Það er enn möguleiki til þessað ná sér í dýrmæta reynslu upp á seinni tíma. Þetta er ekki eitthvað eins árs prógram hjá okkur. Þetta er hluti af lærdómskúrfunni hjá félaginu í því að festa sig í sessi í deildinni," sagði Kristján.

„Við höfum sýnt góða kafla í sumar og fengið virðingu frá liðum en ekki stigin," sagði Kristján að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×