Íslenski boltinn

Bjarni: Marel átti afburðarleik í miðverðinum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Bjarni Jóhannsson.
Bjarni Jóhannsson.

Stjarnan hafði ekki unnið útisigur í Pepsi-deildinni síðan í maí í fyrra þegar liðið mætti í Kaplakrika í dag og sótti þrjú stig. Liðið vann glæsilegan 3-1 sigur á Íslandsmeisturum FH.

„Það er tær snilld að ná útisigrinum hér, það voru ekki margir sem bjuggust við því að hann kæmi á þessum velli. Athugaðu það samt að við erum búnir að vinna tvo útileiki í röð! Í bikarnum og svo í dag," sagði glaður Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar.

FH var 1-0 yfir í hálfleik. „Fyrri hálfleikurinn var rosalega þungur af okkar hálfu. Ég viðurkenni að ég bjóst við að FH myndi stilla liðinu sínu aðeins öðruvísi upp. Taktíkin hálf mistókst hjá okkur í fyrri hálfleik. Maður var eiginlega bara sáttur við að fara með 1-0 í hálfleikinn."

„Í seinni hálfleik ákváðum við að breyta og þétta miðjuna aðeins. Við freistuðum þess að ná meiri krafti í sóknina og það gerðum við. Steinþór (Freyr Þorsteinsson) fékk dauðafæri í stöðunni 1-0 og rétt á eftir kom vítið og rauða spjaldið. Það sem ég er sérstaklega ánægður með er að mínir menn héldu ró sinni í stöðunni 1-1 og við einum fleiri. Þá fóru menn loks að spila boltanum og sýndum gott traust og við kláruðum leikinn með stæl."

Marel Baldvinsson var í miðverðinum hjá Stjörnunni í leiknum og átti frábæran leik. Marel er þekktari fyrir afrek sín á hinum enda vallarins en fann sig vel í hjarta varnarinnar.

„Það varð ekki ljóst fyrr en um hádegið að Tryggvi (Bjarnason) gæti ekki spilað. Við vorum búnir að fara vel yfir taktíkina fyrir leik og ég hefði þurft að róta mikið í öllu saman. Ég vissi það að Marel hafði spilað nokkra leiki sem hafsent með Molde í norsku úrvalsdeildinni. Ég hringdi í hann og spurði hvort kallinn væri ekki klár í þetta. Hann átti afburðarleik hér í dag að mínu mati," sagði Bjarni.

„Góðu mínútunum fer fjölgandi í leikjunum hjá okkur og það er jákvætt. Við erum alsælir með þennan sigur og ég er mjög stoltur af liði mínu í dag."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×