Fótbolti

Tomas Brolin berst fyrir því að fá 19 ára gamalt mark skráð á sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tomas Brolin fagnar einu marka sinna fyrir Svía.
Tomas Brolin fagnar einu marka sinna fyrir Svía. Mynd/GettyImages

Tomas Brolin, fyrrum landsliðsmaður Svíþjóðar í fótbolta, er löngu búinn að leggja skóna á hilluna en hann er þó ekki hættur að berjast fyrir fleiri mörkum á ferlinum. Brolin heldur því fram að hann sé með 27. landsliðsmörk en ekki 26 eins og stendur núna í gögnum sænska knattspyrnusambandsins.

Í landsleik á móti Norðmönnum á Ullevaal í ágúst 1991 breytti hann stefnu á langskoti Roland Nilsson en sænska knattspyrnusambandið skráði markið á Nilsson. "Þetta var mitt mark," segir Brolin og sænskur knattspyrnusagnfræðingur segir að þeir ætli að skoða myndbönd frá markinu.

Tomas Brolin er í dag skráður með 26 landsliðsmörk í 47 leikjum frá 1990 til 1995 þar af eitt þeirra á móti Íslendingum á Råsunda-vellinum 1. júní 1995. Fái hann 27. markið skráð á sig kemst hann upp í 7.til 8. sæti yfir markahæstu landsliðsmenn Svía frá upphafi.

Roland Nilsson má nú samt varla við því að missa þetta mark því þetta er aðeins annað landsliðsmarka hans í 116 landsleikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×