Fótbolti

Scolari hættur sem þjálfari Bunyodkor í Úsbekistan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luiz Felipe Scolari.
Luiz Felipe Scolari. Mynd/AFP
Luiz Felipe Scolari, fyrrum stjóri Chelsea og fyrrum landsliðsþjálfari Portúgals og Brasilíu, er hættur sem þjálfari Bunyodkor í Úsbekistan eftir að liðinu mistókst að vinna Meistaradeildina í Asíu.

Scolari segir þetta hafa verið sameiginlega ákvörðun sem báðir aðilar hagnast á. Hann segist ennfremur vera að vaða í tilboðum og veit þegar um tvö tilboð frá Evrópu, tvo frá miðausturlöndum og tvö frá Brasilíu.

Scolari skrifaði undir 18 mánaða samning við Bunyodkor í júní 2009 og gerði liðið að meisturum á fyrsta ári auk þess að liðið komst undir hans stjórn í átta liða úrslit Meistaradeildar Asíu.

Bunyodkor féll út úr Meistaradeildinni fyrir Al Hilal frá Sádí-Arabíu en félagið á í fjárhagsvandræðum og því var fyrsti kostur að reyna að losa undan risasamningnum við Scolari sem varð launahæsti þjálfari heims þegar hann samdi við Bunyodkor.

Scolari mun vinna við lýsingar frá HM í Suður-Afríku í sumar en hann gerði einmitt Brasilíumenn að heimsmeisturum 2002 og fór með Portúgal alla leið í undanúrslitin fyrir fjórum árum. Hann fór síðan til Chelsea þaðan sem hann var rekinn í febrúar 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×