Fótbolti

Ólafur: Danir eru frábærir í fótbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaupmannahöfn skrifar

Íslenska landsliðið í knattspyrnu æfði á Parken, þjóðarleikvangi Dana, nú í kvöld. Allir í leikmannahópnum eru heilir, nema Árni Gautur Arason markvörður.

„Við munum á þessari æfingu athuga með Árna Gaut. Hann hefur enn ekki látið reyna á það hvort hann geti sparkað boltanum langt en hann hefur átt í vandræuðm með það,“ sagði Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari á blaðamannafundi fyrir æfinguna.

Gunnleifur Gunnleifsson stóð í marki Íslands gegn Noregi á föstudagskvöldið og Ingvar Þór Kale var á bekknum. Báðir eru þeir með í Danmörku.

Eins og áður mun Ólafur ekki tilkynna byrjunarliðið fyrr en á leikdag. „Þar til að liðið verður tilkynnt eiga allir möguleika,“ sagði Ólafur.

Hann sagðist þó vera 99 prósent viss um hver myndi byrja í stöðu hægri bakvarðar en Grétar Rafn Steinsson er nú meiddur. Arnór Sveinn Aðalsteinsson kom inn á fyrir hann í leiknum gegn Noregi.

Annars sagði Ólafur að undirbúningurinn fyrir leikinn hefði gengið vel og að stemningin í liðinu hefði verið góð, þrátt fyrir svekkjandi tap fyrir Norðmönnum.

„Við hristum Noregsleikinn af okkur strax á föstudagskvöldið. Við tókum eina æfingu á Íslandi á laugardagsmorgun og höfum svo æft tvisvar hér í Danmörku auk æfingarinnar hér í kvöld.“

„Stemningin í landsliðinu hefur alltaf verið góð. En með ungum strákum koma nýjir brandarar og ferskir andar með þeim,“ bætti Ólafur við.

Hann segir að þrátt fyrir að landslið Dana hafi tekið nokkrum breytingum að undanförnu séu þeir afar sterkir og erfiðir heim að sækja.

„Þrír leikmenn hættu nýlega með landsliðinu og [Nicklas] Bendtner er meiddur. En Danirnir eru fimm milljónir og við þrjú hundruð þúsund. Okkur vantar þar að auki einhverja leikmenn og ég held að þetta komi ekki til með að hafa áhrif á þá. Danir eru frábærir í fótbolta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×