Enski boltinn

Joey Barton: Það er enginn miðjumaður betri en ég á Englandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joey Barton.
Joey Barton. Mynd/AFP
Newcastle-maðurinn Joey Barton hefur trú á því að hann geti spilað sig inn í enska landsliðið á þessu tímabili. Barton er einna frægastur fyrir að lenda í vandræðum innan sem utan vallar og sat meðal annars inn í fangelsi um tíma.

Barton bar fyrirliðabandið í 3-0 sigri Newcastle á Carlisle í æfingaleik um helgina og var kokhraustur eftir leikinn. „Ég stefni fyrst og fremst að því að standa mig vel með Newcastle United. Eftir að hafa horft á leiki enska liðsins á HM í Suður-Afríku þá sá ég að það er enginn betri miðjumaður en ég í Englandi ef ég er í formi," sagði Barton við Evening Chronicle.

Barton hefur spilað einn landsleik þegar hann kom inn á sem varamaður fyrir Frank Lampard í 0-1 tapi á móti Spáni árið 2007.

„Ég er mun fjölhæfari leikmaður en ég var þá. Meiðsli hafa þýtt að ég hef ekki náð að sýna mitt besta. Ef ég slepp við þau og kem mér í gott form þá er ég viss um að ég kemst í landsliðsform," sagði Barton en Newcastle er komið aftur upp í ensku úrvalsdeildina eftir eins árs fjarveru.

„Vonandi getum við notað þessa heimsmeistarakeppni til þess að breyta ákveðnum hlutum í kringum enska landsliðið. Nú eiga menn að hætta að velja stærstu nöfnin í landsliðið og velja þess í stað þá leikmenn sem standa sig best. Það gera þær þjóðir sem ná árangri," sagði Barton að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×