Íslenski boltinn

Keflvíkingar spila í Njarðvík í kvöld: Unnu þar sinn fyrsta titil 1964

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keflvíkingar fagna hér sigri á Keflavíkurvellinum.
Keflvíkingar fagna hér sigri á Keflavíkurvellinum. Mynd/Anton
Keflvíkingar taka á móti Fylkismönnum í kvöld á Njarðtaksvellinum í Njarðvík þar sem Keflavíkurliðið mun spila fyrstu tvo heimaleiki sína í sumar á meðan verið er að laga Sparsjóðsvöllinn í Keflavík.

Keflvíkingar hafa áður spilað heimaleiki sína í Njarðvík. Gamli Njarðvíkurvöllurinn var heimavöllur liðsins á árunum 1959 til 1967 eða allt þar til að grasvöllurinn í Keflavík var tekinn í notkun um mitt sumar 1967.

Keflavík spilaði einnig einn leik í Njarðvík sumarið 1970 þegar Keflavíkurvöllurinn var óleikfær og mætti síðan ÍBV í Njarðvík sumarið 1973 þegar Eyjamenn spiluðu heimaleiki sína þar í kjölfar eldgosins í Heimaey.

Keflvíkingar hafa unnið 13 af síðustu 19 leikjum sínum í Njarðvík í efstu deild og aðeins tapað tveimur þeirra. Keflavík vann tvo síðustu leiki sína í Njarðvík 1-0 eða með sömu markatölu og tvo fyrstu leiki sína í Pepsi-deild karla í sumar.

Það vita kannski ekki allir að Keflvíkingar unnu einmitt sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í Njarðvík 20. september 1964. Keflavík gerði þá 1-1 jafntefli við KR í lokaleik mótsins en KR var fyrir leikinn eina liðið sem gat náð Keflavík. Það var Rúnar Júlíusson sem skoraði mark Keflavíkur í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×