Innlent

Breytingar verði gerðar af virðingu

Nýtt hlutverk á Barónsstíg? Eigandi gömlu Heilsuverndarstöðvarinnar vill leigja hana til Icelandair Hotels.
Samsett mynd/Fréttablaðið
Nýtt hlutverk á Barónsstíg? Eigandi gömlu Heilsuverndarstöðvarinnar vill leigja hana til Icelandair Hotels. Samsett mynd/Fréttablaðið

„Það er mikilvægt, ef af verður, að breytingarnar verði framkvæmdar af virðingu við þetta merka hús,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, um ósk eiganda Heilsuverndarstöðvar­innar á Barónsstíg að innrétta húsið sem hótel.

Júlíus bendir á að um sé að ræða atvinnuhúsnæði í einkaeigu. „Þeir sem vilja reka hótel í atvinnuhúsnæði hafa rétt til þess og geta byggt umsókn um slíkt á þeim forsendum. Það er hálf sorglegt að svona flott hús sem er ákveðið kennileiti hér í Reykjavík skuli ekki vera í notkun,“ segir hann.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær kveðst eigandi hússins, Álftavatn ehf., árangurslaust hafa reynt að koma því í notkun sem læknamiðstöð og sjúkrahótel. „Auðvitað hefði maður helst viljað sjá þetta hús í þeirri notkun sem það var byggt fyrir – í þágu heilbrigðisgæslu,“ segir Júlíus.

Skipulagsráð hefur ekki tekið afstöðu til málsins. Álftvatn ehf. leggur áherslu á að vinnslu málsins sé hraðað svo að Icelandair Hotels geti hafið þar rekstur strax í vor en Júlíus segir margt ógert. Við blasi að gera þurfi miklar breytingar á innviðum hússins. „Ég reikna með að húsafriðunarnefnd og fleiri fagaðailar hafi áhuga á að fylgjast vel með þessu máli. Þá verður að hafa í huga hvaða áhrif breytt notkun geti haft á nærumhverfið,“ segir formaður skipulagsráðs. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×