Enski boltinn

Capello: Varð að taka fyrirliðastöðuna af Terry

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello landsliðsþjálfari Englands.
Fabio Capello landsliðsþjálfari Englands. Nordic Photos / Getty Images

Fabio Capello landsliðsþjálfari Englands segir að hann hafi ekki átt neinna kosta völ en að taka fyrirliðabandið af John Terry í vetur.

Mikið var fjallað um einkalíf John Terry í vetur en því var haldið fram að hann hefði haldið framhjá eiginkonu sinni með fyrrum kærustu og barnsmóður Wayne Bridge.

Terry og Bridge voru á sínum tíma samherjar í Chelsea sem og landsliðsfélagar. Bridge hætti að gefa kost á sér í landsliðið eftir þetta.

„Ég átti engan annan kost. Hann veit vel að ég tel að gildismat sé öllu öðru mikilvægara," sagði Capello í viðtali við ítalska fjölmiðla.

„Ég var staddur á Ítalíu þegar ég fékk símtal og mér var greint frá stöðu mála. Ég hugsaði um þetta og hringdi svo í John. Við töluðum saman enda er hann fullorðinn maður og alvörugefinn einstaklingur."

Capello fór svo aftur til Englands og kallaði Terry á sinn fund þar sem Capello tilkynni honum ákvörðun sína.

„Ég sagði honum að fyrirliðinn yrði að vera fyrirmynd annarra. Ég gat því ekki leyft honum að halda fyrirliðastöðunni."

En hann óttaðist aldrei að missa Terry úr landsliðinu. „Þetta er eitt af því sem getur gerst í lífinu. Terry er einn þeirra sem breytir miklu í liðinu og hann er sannur leiðtogi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×