Innlent

Rýmingu aflétt að hluta en fylgst með nýju flóði

Rýmingu á stærsta svæðinu á Suðurlandi nærri Eyjafjallajökli verður aflétt klukkan átta í kvöld en ekki er búið að gefa upp hvaða svæði það eru.

Það verður ekki gert fyrr en útséð er hversu stórt og umfangsmikið flóðið verður sem nú er á leiðinni niður að sögn Kjartans Þorkelssonar sýslumanns á Hvolsvelli.

Íbúar tugi bæja fá samt ekki að fara heim þrátt fyrir að rýmingu verði aflétt að hluta. Haft verður samband við það fólk símleiðis.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir orðrétt:

Á fundi lögreglustjórans á Hvolsvelli með fulltrúum ríkislögreglustjóra og ráðuneyta nú fyrir stundu var ákveðið að rýmingum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli yrði aflétt að mestu kl. 20 í kvöld. Rýmingu verður ekki aflétt á nokkrum bæjum og munu fulltrúar lögreglustjórans á Hvolsvelli ræða sérstaklega við viðkomandi íbúa um það mál. Þeir sem fá hins vegar að fara heim til sín í kvöld eru beðnir um að vera vakandi og tilbúnir að rýma hús sín með skömmum fyrirvara á ný ef þörf krefur.

Ekki er heimilt að dvelja í frístundahúsum á svæðinu sem rýmt var vegna eldgossins síðastliðna nótt.

Vegir verða áfram lokaðir og takmarkanir á umferð um rýmingarsvæðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×