Íslenski boltinn

Ólafur: Skelfilegt í seinni hálfleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brotið á Heiðari en ekkert var dæmt.
Brotið á Heiðari en ekkert var dæmt. Fréttablaðið/Anton
„Fyrsti hálftíminn í síðari hálfleik var skelfilegur,“ sagði niðurlútur landsliðsþjálfari, Ólafur Jóhannesson, eftir 2-1 tapið fyrir Noregi á heimavelli í kvöld.

„Við spiluðum fínan fyrri hálfleik og fengum þá nokkra sénsa. Það er erfitt að segja hvað klikkaði, kannski urðum við of hræddir."

„Mér líður því ekki vel því við vorum í fínu færi eftir fyrri hálfleikinn til að klára þennan leik. Væntingar mínar fyrir leikinn var að vinna og ég taldi okkur eiga fullan möguleika á því. Við erum alveg jafn góðir og Norðmennirnir."

Hann vildi ekki skrifa það sem fór úrskeðis á reynsluleysi ungu strákanna sem spiluðu í dag.

„Það voru ekkert frekar ungu strákarnir. Allir misstu hausinn í seinni hálfleik. Í þeim fyrri sýndu ungu strákarnir að þetta eru frábærir fótboltamenn og við þurfum að byggja á því sem við sáum þar."

Ólafur taldi að Gunnleifur Gunnleifsson hefði líklega átt að verja þegar að Brede Hangeland jafnaði metin fyrir Norðmenn.

„Ég held að hann hefði átt að taka þann bolta, án þess að ég hafi skoðað það gaumgæfilega. En öll mörk koma eftir mistök. Ef þau eru ekki gerð getum við hent mörkunum út af og spilað upp á 0-0."

Hinn hættulegi Mohammed Abdellaoue skoraði svo sigurmark Norðmanna.

„Þessi drengur sést kannski ekki oft mikið í leikjum en er mikill markaskorari. Hann fékk sendingu, sneri af sér manninn og skoraði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×