Íslenski boltinn

Umfjöllun: KR áfram á þráðbeinni braut eftir stórsigur á Val

Elvar Geir Magnússon skrifar
Óskar Örn Hauksson var flottur í kvöld, skoraði tvö mörk fyrir KR og lagði hin tvö upp í 4-1 sigri.
Óskar Örn Hauksson var flottur í kvöld, skoraði tvö mörk fyrir KR og lagði hin tvö upp í 4-1 sigri.

Síðustu umferðir Pepsi-deildarinnar hafa heldur betur verið að spilast eftir óskum KR-inga. Þeir unnu í kvöld 4-1 útisigur á Val, þeirra fimmti deildarsigur í röð og þeir virðast ætla að taka þátt í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn af fullum krafti.

Óskar Örn Hauksson getur verið sáttur við sitt starf í kvöld, hann skoraði tvö af mörkum KR með hörkuskotum og lagði síðan upp hin tvö.

Ekki eru margar vikur síðan allir voru búnir að útiloka KR í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn og virtist liðið líklegra til að blanda sér í baráttuna á hinum endanum. En dæmið hefur algjörlega snúist við og toppbarátta deildarinnar er orðin galopin.

Í fyrri hálfleik var jafnræði með liðunum en Valsmenn fengu betri færi, það besta fékk Atli Sveinn Þórarinsson rétt fyrir hálfleik. En á meðan heimamenn mættu með hangandi haus í seinni hálfleikinn settu gestirnir í gírinn og skoruðu fjögur mörk á tíu mínútna kafla.

Björgólfur Takefusa misnotaði algjört dauðafæri áður en ísinn var brotinn af Kjartani Henry Finnbogasyni. Stórt spurningamerki verður að setja við úthlaupið hjá nafna hans í Valsmarkinu sem var í meira lagi undarlegt.

Mark Rutgers skoraði síðan eitt af mörkum sumarsins áður en Óskar Örn gerði endanlega út um þetta með tveimur mörkum. Eftir það var bara formsatriði fyrir KR að klára leikinn og sárabótamark Jóns Vilhelms fyrir Valsmenn breytti litlu.

Valsmenn mölbrotnuðu við að lenda undir og er það áhyggjuefni fyrir Gunnlaug Jónsson, þjálfara liðsins. KR-ingar unnu verðskuldaðan sigur og sýndu að þeir ætla sér heldur betur að vera með í baráttunni um titilinn. Þeir fóru oft illa með bakverði Valsliðsins og náðu flottum spilköflum.

Ef KR vinnur Fylki á fimmtudag kemst liðið upp að hlið Breiðabliks og er aðeins tveimur stigum á eftir toppliði ÍBV. Staðan er orðin sú að ef KR-ingar vinna þá leiki sem þeir eiga eftir standa þeir uppi sem sigurvegarar... en það á ansi mikið magn af vatni eftir að renna til sjávar.

Valur - KR 1-4

0-1 Kjartan Henry Finnbogason (55.)

0-2 Mark Rutgers (57.)

0-3 Óskar Örn Hauksson (63.)

0-4 Óskar Örn Hauksson (65.)

1-4 Jón Vilhelm Ákason (77.)

Áhorfendur: Óuppgefið

Dómari: Jóhannes Valgeirsson 6

Skot (á mark): 10-13 (3-7)

Varin skot: Kjartan 3 - Lars 2

Horn: 5-4

Aukaspyrnur fengnar: 11-9

Rangstöður: 0-1

Valur 4-5-1:

Kjartan Sturluson 4

Stefán Eggertsson 3

Atli Sveinn Þórarinsson 5

Martin Pedersen 6

Rúnar Már Sigurjónsson 3

Þórir Guðjónsson 5

(51. Baldur Aðalsteinsson 4)

Haukur Páll Sigurðsson 5

Ian Jeffs 4

Jón Vilhelm Ákason 6

Arnar Sveinn Geirsson 6

Diarmuid O´Carrol 4

(66. Guðmundur Steinn Hafsteinsson 4)

KR 4-3-3:

Lars Ivar Moldskred 5

Skúli Jón Friðgeirsson 6

Grétar Sigfinnur Sigurðarson 7

Mark Rutgers 7

Jordao Diogo 8

(74. Dofri Snorrason -)

Bjarni Guðjónsson 7

Viktor Bjarki Arnarsson 6

(77. Egill Jónsson -)

Baldur Sigurðsson 6

Kjartan Henry Finnbogason 6

(66. Gunnar Örn Jónsson 6)

Óskar Örn Hauksson 8* - Maður leiksins

Björgólfur Takefusa 5

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins. Til þess að skoða lýsinguna þarf að smella hér: Valur - KR






Fleiri fréttir

Sjá meira


×