Innlent

Nær allir útrásavíkingarnir hafa flutt lögheimili sitt til útlanda

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson hefur lengi verið búsettur í Bretlandi.
Björgólfur Thor Björgólfsson hefur lengi verið búsettur í Bretlandi.

Nær allir útrásarvíkingarnir hafa flutt lögheimili sitt til útlanda. Aðeins þrír af stærstu leikendunum í viðskiptalífinu fyrir bankahrun eru með lögheimili sitt skráð á Íslandi. Vegna þessa verða sakamál þyngri í vöfum og seinlegri auk þess sem innheimtuaðgerðir verða erfiðari segir lögmaður.

Það er ekki nýmæli að áberandi menn í viðskiptalífinu flytji lögheimili sitt til útlanda. Sumir hafa verið með lögheimili í útlöndum um árabil, aðrir hafa flutt það út á þessu ári. Við skulum líta á hvar helstu leikendur í viðskiptalífinu fyrir hrun eru búsettir í dag.

Við byrjum á Bretlandi sem virðist vera ákjósanlegur staður í augum víkinganna, amk hvað varðar lögheimili. Meðal þeirra sem flutt hafa lögheimili sitt þangað eru:

Pálmi Haraldsson, hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir. Fyrrum viðskiptafélagi þeirra Magnús Ármann. Fyrrverandi FL Group forstjórinn Hannes Smárason og fyrrverandi forstjóri Glitnis Lárus Welding.

Bakkabræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, Singer &Friedlander forstjórinn fyrrverandi Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings Sigurður Einarsson. Björgólfur Thor Björgólfsson og Steingrímur Wernersson, kenndur við Milestone.

Ólafur Ólafsson sem jafnan er kenndur við Samskip auk þess sem hann er eigandi Kjalars sem var einn af stærstu hluthöfum Kaupþings er skráður með lögheimili í Bretlandi. Hann er þó búsettur í Sviss.

Í Kanada er fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Halldór J. Kristjánsson, með lögheimili og í Lettlandi Jón Helgi Guðmundsson sem kenndur er við Byko.

Í Lúxemborg eru báðir fyrrverandi forstjórar Kaupþings með skráð lögheimili, þeir Hreiðar Már Sigurðsson og Ingólfur Helgason. Auk þeirra er einn stærsti skuldari Kaupþings, Skúli Þorvaldsson, skráður til heimilis þar.

Magnús Þorsteinsson, sem myndaði þrenningu með Björgólfsfeðgum í Samson hópnum sem keypti Landsbankann, er með lögheimili í Rússlandi. Magnús hefur verið lýstur gjaldþrota hér á landi.

Aðeins þrír af mest áberandi mönnunum í viðskiptalífinu fyrir hrun eru skráð lögheimili hér á landi. Þeir eru Björgólfur Guðmundsson, Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans og Karl Wernersson, Milestone maður og fyrrverandi stjórnarformaður Sjóvár.

Hefur sú staðreynd að bróðurparturinn af þeim sem eru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara og skattinum séu búsettir erlendis, áhrif hvort að réttvísin nái fram að ganga verði niðurstaðan sú að þeir hafi brotið lög?

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður, segir þetta hafa lítil áhrif á rannsókn sakamála önnur en að þau verði þyngri í vöfum og seinlegri. Í versta falli verði hægt að krefjast framsals.

Þá bendir Sveinn Andri á að þegar menn séu komnir með lögheimili í öðru landi gildi ekki um þá þær gjaldþrotaskiptareglur sem eru við lýði hér á landi.

Þá verði að beita gjaldþrotaskiptaúrræðum sem eru í landinu þar sem viðkomandi er með lögheimili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×