Enski boltinn

Kasper Schmeichel verður leystur undan samningi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kasper Schmeichel fagnar með liðsfélögum sínum í gær.
Kasper Schmeichel fagnar með liðsfélögum sínum í gær. Nordic Photos / Getty Images

Enska D-deildarfélagið Notts County hefur samþykkt að rifta samningi markvarðarins Kasper Schmeichel við félagið eftir að tímabilinu lýkur.

Liðið tryggði sér í gær sigur í deildinni en Schmeichel var fenginn til félagsins í sumar þegar að félagið var í eigu Munto Finance, fjárfestingarfélags frá miðausturlöndum. Schmeichel á fjögur ár eftir af núverandi samningi sínum við félagið.

Talið er að Schmeichel hafi fengið fimmtán þúsund pund í vikulaun frá félaginu og sagði Ray Trew, stjórnarformaður Notts County, að félagið hefði ekki efni á að halda honum á launaskrá næstu fjögur árin.

„Það er of mikil áhætta fólgin í því að bíða eftir mögulegri sölu. Ef okkur tækist ekki að selja hann hefði það mikil og slæm áhrif á fjárhag félagsins," sagði Trew í samtali við enska fjölmiðla.

Trew hrósaði Schmeichel einnig mikið fyrir að fara ekki fram á háa lokagreiðslu í starfslokasamningi sínum.




Tengdar fréttir

Notts County meistari í ensku D-deildinni

Notts County tryggði sér í gærkvöldi meistaratitilinn í ensku D-deildinni með 5-0 útisigri á Darlington sem var reyndar þegar fallið í ensku utandeildina fyrir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×