Enski boltinn

Notts County meistari í ensku D-deildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steve Cotterill, til hægri, fagnar sigrinum í gær.
Steve Cotterill, til hægri, fagnar sigrinum í gær. Nordic Photos / Getty Images

Notts County tryggði sér í gærkvöldi meistaratitilinn í ensku D-deildinni með 5-0 útisigri á Darlington sem var reyndar þegar fallið í ensku utandeildina fyrir leikinn.

Liðið er nú með 89 stig á toppi deildarinnar, sjö stigum meira en Rochdale þegar tvær umferðir eru eftir.

Tímabilið hefur verið skrautlegt hjá Notts County. Liðið var keypt af moldríkum peningamönnum frá miðausturlöndum sem ætluðu sér stóra hluti og réðu til að mynda Sven-Göran Eriksson sem yfirmann knattspyrnumála og sömdu við Sol Campbell.

Campbell gafst reyndar upp eftir aðeins einn leik og er nú kominn til Arsenal. Eigendurnir gáfust svo líka upp og skömmu eftir að félagið var selt Peter Trembling fyrir lítinn pening hætti Eriksson hjá félaginu.

Alls hafa fjórir knattspyrnustjórar stýrt liðinu á tímabilinu - Ian McParland, Hans Backe, Dave Kevan og nú síðast Steve Cotterill.

Cotterill tók við Guðjóni Þórðarsyni hjá Stoke á sínum tíma en Guðjón var einmitt einnig knattspyrnustjóri Notts County tímabilið 2005-6. Notts County er sem kunnugt er elsta knattspyrnufélag heims en það var stofnað árið 1862.

„Það var von okkar að vinna þennan titil. Þetta hefur ekki verið auðvelt ferli og leikmenn hafa verið fyrsta flokks," sagði Cotterill eftir leikinn í gær en liðið var fjórtán stigum frá toppliði deildarinnar þegar hann tók við stjórn þess í febrúar síðastliðnum.

„Maður upplifir ekki svona lagað á hverjum degi. Þetta var frábært og ég er hæstánægður."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×