Innlent

Fyrsta stóra útboð í vegagerð í heilt ár

Kristján Már Unnarsson skrifar
Suðurlandsvegur.
Suðurlandsvegur. Mynd/Anton Brink
Vegagerðin hefur boðið út tvöföldun Suðurlandsvegar við Sandskeið. Þetta er fyrsta stóra útboðið í vegagerð hérlendis í nærri heilt ár.

Boðinn er út 6,5 kílómetra kafli milli Lögbergsbrekku og Litlu Kaffistofunnar og verða tilboð opnuð þann 20. apríl. Þetta er fyrsta stóra verkið sem Vegagerðin býður út frá því smíði nýrrar Hvítárbrúar í Árnessýslu var boðin út í mars í fyrra en eftir það settu stjórnvöld á framkvæmdastopp vegna fjárskorts og útboðum stærri nýframkvæmda var frestað.

Áætlað er að tvöföldun kaflans um Sandskeið kosti um einn og hálfan milljarð króna en Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar að fjármunirnir fáist með því að yfirfæra hluta innistæðu, sem var fyrir hendi í árslok 2008, til ársins 2010. Með sömu innistæðu á einnig að bjóða út í næsta mánuði tvöföldun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ, en það er verk upp á 500 milljónir króna.

Vinna við bæði þessi verk ætti að vera komin á fullt í byrjun sumars, og taka rúmt ár, en verklok eru áætluð haustið 2011.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×