Fótbolti

Indriði: Ungu strákarnir eru góðir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Parken skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld.

Indriði Sigurðsson segir það alltaf svekkjandi að tapa en sérstaklega þegar sigurmark andstæðingsins kemur í uppbótartíma eins og gerðist gegn Dönum í kvöld.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist,“ sagði Indriði við Vísi eftir leikinn í kvöld. „Við vörðumst vel allan leikinn. Við vorum að vísu í smá erfiðleikum í fyrri hálfleik en tókst að loka á það í þeim síðari. Ef eitthvað er fengum við hættulegri færi og hefðum getað stolið þessu.“

Indriði fékk að kljást við Dennis Rommedahl sem var hættulegasti maður Dana í fyrri hálfleik.

„Það var mjög erfitt. Enda sagði ég í hálfleik að við ættum að prófa að leyfa þeim að fara upp vinstra megin. Þar er kantmaður sem er óskrifað blað og með Birki á móti sér sem er mjög snöggur. Það virkaði vel og þetta gekk illa hjá þeim í seinni hálfleik.“

„En ungu strákarnir eru góðir. Þeir hafa sýnt að við getum spilað vel þegar við fáum tíma til þess. Það er baráttuhugur í mönnum og við verðum bara að taka það jákvæða með okkur úr þessum leik. Þetta er skref í rétta átt en það er svekkjandi að tapa. Mér fannst við eiga einfaldlega meira skilið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×