Íslenski boltinn

Biðu í 1980 mínútur eftir víti í fyrra en í aðeins 90 sekúndur í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Orri Björnsson, vítaskytta Stjörnunnar, fékk loksins eitthvað að gera.
Halldór Orri Björnsson, vítaskytta Stjörnunnar, fékk loksins eitthvað að gera. Mynd/Anton
Stjörnumenn fögnuðu 4-0 sigri á Grindavík í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í gær en örlög leiksins réðust eiginlega eftir aðeins 90 sekúndur þegar Grindvíkingurinn Auðun Helgason felldi Steinþór Frey Þorsteinsson innan vítateigs og fékk dæmt á sig víti og rautt spjald.

Stjörnumenn voru þarna að fá sitt fyrsta víti í deildarleik síðan í 22. umferð í 1. deild karla sumarið 2008. Stjarnan lék nefnilega allar 1980 mínúturnar í Pepsi-deild karla á síðasta tímabili án þess að fá víti. Það voru hinsvegar dæmd sex víti á Stjörnuliðið.

Stjörnumaðurinn Halldór Orri Björnsson steig fram og skoraði úr vítinu en hann skoraði einnig úr vítaspyrnunni sem Stjörnumenn fengu á móti Haukum 20. september 2008.

Það voru bara tvö lið sem fengu ekki víti í Pepsi-deild karla í fyrrasumar, Stjarnan og svo lið ÍBV sem hefur nú leikið 40 úrvalsdeildar leiki í röð án þess að fá víti. ÍBV fékk síðast víti á móti Keflavík í 1. umferð sumarið 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×