Íslenski boltinn

Gummi Ben: Erum með gott lið sem refsar

Jón Júlíus Karlsson skrifar

„Vörnin hjá Haukum opnast eftir fyrsta markið og við fengum því fleiri marktækifæri. Við erum með gott sem refsar,“ sagði Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, eftir góðan sigur á heimavelli gegn Haukum í kvöld.

„Við nýttum tækifærin í kvöld og skorum þrjú góð mörk. Við höldum hreinu sem ég er virkilega ánægður með. Ég var sannfærður um að við myndum sýna að sigurinn gegn KR var enginn tilviljun.“

Leikurinn var í miklu jafnvægi framan af og er Guðmundur ánægður með hversu mikla þolinmæði leikmenn sínir sýndu í kvöld.

„Ég er rosalega ánægður með þá þolinmæði sem liðið sýndi. Þetta var stór leikur fyrir bæði lið og er ákaflega stoltur að mínir menn skyldu halda leiksskipulaginu. Við vissum að færin myndu koma og við nýttum þau vel.“

Selfoss er eftir leik kvöldsins komið með sex stig og Guðmundur segir að markmiðin séu skýr.

„Markmið okkar er skýrt, við ætlum að halda okkur uppi í þessari deild og hér viljum við vera. Það væri auðvitað frábært að ná sem flestum stigum í upphafi móts en næsti leikur gegn Stjörnunni sem er gríðarlega erfiður. Þar þurfum við að eiga toppleik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×