Innlent

21 fallbyssuskoti hleypt af

Forseti Íslands kannaði heiðursvörð indverska hersins við forsetahöllina í Nýju-Delí í gær. Nordicphotos/AFP
Forseti Íslands kannaði heiðursvörð indverska hersins við forsetahöllina í Nýju-Delí í gær. Nordicphotos/AFP
Forseti Indlands, Pratibha Patil, afhenti í gær Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, Nehru-verðlaunin fyrir árið 2007. Verðlaunin veita indversk stjórnvöld ár erlendum manni, sem talinn er stuðla að friði og skilningi þjóða á milli. Síðastur hlaut verðlaunin á undan forseta Íslands, Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu en áður hafa meðal annars hlotið þau Aung San Suu Kyi, Nelson Mandela og Yasser Arafat.

Forsetahjónin eru nú í sjö daga opinberri heimsókn á Indlandi. Í gær var hleypt af 21 fallbyssuskoti við móttökuathöfn til heiðurs þeim í forsetahöllinni í Nýju-Delí. Þar átti forsetinn viðræður við Patil forseta og Manmohan Singh forsætisráðherra. Í fréttatilkynningu frá forsetaskrifstofu kemur fram að Singh hafi lýst áhuga Indverja á að nýta Keflavíkurflugvöll sem samgöngumiðstöð fyrir fólks- og vöruflutninga. Einnig hafi forsætisráðherrann verið áhugasamur um samvinnu varðandi olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Í gærkvöldi sat forseti Íslands svo kvöldverðarboð fornvinar síns, Murli Deora, olíumálaráðherra Indlands, ásamt fjölmörgum áhrifamönnum úr indverskum olíuiðnaði.

Ólafur Ragnar tilkynnti við verðlaunaathöfnina að hann ætli að láta verðlaunaféð, sem jafngildir um 14 milljónum króna, standa straum af kostnaði við rannsóknir íslenskra og indverskra vísindamanna á jöklum og vatnsforða í Himalajafjöllum. - pg
Þjóðhöfðingjar Pratibha Patil, forseti Indlands, ásamt forsetahjónunum, Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff. Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands, er forsetafrúnni á hægri hönd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×