Fótbolti

Ólafur Ingi: Danir eru með hörkulið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaupmannahöfn skrifar
Ólafur Ingi Skúlason fagnar marki ásamt Heiðari Helgusyni.
Ólafur Ingi Skúlason fagnar marki ásamt Heiðari Helgusyni. Mynd/Pjetur
Ólafur Ingi Skúlason segir að danska landsliðið sé sterkt og að margir góðir ungir leikmenn hafi verið að ryðja sér til rúms í liðinu.

Ísland og Danmörk mætast í Kaupmannahöfn í kvöld og á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í gær var Ólafur Ingi spurður hverjir væru hættulegustu leikmenn Dana.

„Þeir eru allir mjög góðir. Liðið er mjög vel spilandi og sækja á mörgum mönnum. Liðið hefur verið að ganga í gegnum kynslóðaskipti en það virðist ekki koma að sök."

„Christian Eriksen er einn af þeim sem kemur í hugann. Hann er átján ára gamall, spilar með Ajax og er einn af bestu leikmönnum Dana. Hann er stórhættulegur."

Sjálfur spilar Ólafur Ingi með SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni og vill gjarnan fá að þagga niður í dönskum liðsfélögum sínum.

„Það eru líka tveir Norðmenn í liðinu og það verður erfitt að hitta þá," sagði hann en Ísland tapaði á föstudagskvöldið fyrir Noregi á Laugardalsvellinum, 2-1.

„Það er því vonandi að okkur tekst að þagga niður í Dönunum og látið þá aðeins heyra það. Það hefur verið mikil og góð stemning fyrir leikina í okkar riðli og það verður enn skemmtilegra þegar við náum góðum úrslitum í þessum leik."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×