Fótbolti

John Hartson hefur áhuga á því að taka við velska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Hartson í landsleik með Wales.
John Hartson í landsleik með Wales. Mynd/AFP
John Hartson, fyrrum framherji velska landsliðsins, hefur áhuga á því að taka við velska landsliðinu fari svo eins og allt stefnir í að John Toshack hætti með liðið. Enskir fjölmiðlar sögðu að Toshack væri á útleið eftir 1-0 tap á móti Svartfjallalandi í fyrsta leik undankeppninnar.

John Hartson er 35 ára gamall og nýbúinn að sigrast á krabbameini en hann hefur enga reynslu af þjálfun. „Ég veit ekki hversu alvarlega sambandið mun skoða mig en ef ég fengi tilboð um að þjálfa liðið þá myndi ég hugsa mig vel um," sagði Hartson sem skoraði 14 mörk í 51 landsleik á árunum 1995 til 2005.

John Toshack er búinn að stýra velska liðinu í sex ár eða síðan að hann tók við af Mark Hughes í nóvember 2004. Liðið er búið að vinna 21 af 53 leikjum og tapa 24 undir hans stjórn.

Hartson lék á sínum tíma við góðan orðstýr hjá Celtic, West Ham og Arsenal. Hann bendir á aðkomu Mark Hughes að velska landsliðinu á sínum tíma sem dæmi um að maður án þjálfarareynslu geti alveg staðið sig í þessu starfi. Það eigi því ekki að útiloka hann þrátt fyrir reynsluleysi.

Velska landsliðið er í riðli með Englandi, Sviss, Búlgaríu og Svartfjallalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×