Fótbolti

Kjær: Andstæðingurinn þekkir okkur ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Kaupmannahöfn skrifar
Simon Kjær.
Simon Kjær. Mynd/AFP
„Í fyrsta sinn í mörg ár þekkir andstæðingurinn ekki danska landslðiðið," sagði Simon Kjær, leikmaður liðsins, fyrir leik þess gegn Íslendingum í Kaupmannahöfn í kvöld.

Kjær vísar til þess að Morten Olsen, landsliðsþjálfari, mun líklega stilla upp nokkrum ungum og óreyndum leikmönnum í kvöld og að liðið hafi gengið í gegnum kynslóðaskipti.

„Þetta eru afar spennandi tímar," sagði Kjær. „Önnur landslið hafa kortlagt leik liðsins og leikmennina sjálfa. Þau vissu vel hvað við gátum og gátum ekki. En nú eru nýir leikmenn í liðinu sem búa yfir öðrum kostum. Það gefur landsliðinu nýja möguleika."

Líklegt er að fjórir ungir leikmenn verði í byrjunarliði Dana í kvöld sem falla í þennan flokk. Nicklas Pedersen á að baki einn landsleik en verður væntanlega fremsti maður liðsins í kvöld í fjarveru Nicklas Bendtner, leikmanns Arsenal.

Christian Eriksen er ekki nema átján ára gamall en á þegar sex landsleiki að baki. Hann þykir afar hæfileikaríkur en hann spilar sem sóknartengiliður. Eriksen er á mála hjá Ajax í Hollandi.

Þá má einnig gera ráð fyrir því að Michael Krohn Dahl (5 landsleikir), hægri kantmaður, og bakvörðurinn Leon Jessen (2 landsleikir) verði í eldlínunni á Parken í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×