Enski boltinn

Sjálfsmark Everton í uppbótartíma kostaði liðið tvö stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Cahill skorar hér fyrsta mark leiksins.
Tim Cahill skorar hér fyrsta mark leiksins. Mynd/AFP
Aston Villa tryggði sér 2-2 jafntefli á heimavelli á móti Everton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar Phil Jagielka varð á að skora sjálfsmark í uppbótartíma. Lengi vel leit út fyrir að tvö skallamörk Tim Cahill myndu tryggja Everton sigur.

Tim Cahill kom Everton í 1-0 á 23. mínútu þegar hann skallaði inn aukaspyrnu Leighton Baines. 

Gabriel Agbonlahor jafnaði leikinn með skallamarki eftir sendingu frá James Milner á 72. mínútu en það tók Tim Cahill aðeins tvær mínútur að koma Everton aftur yfir þegar hann skallaði inn hornspyrnu Diniyar Bilyaletdinov.

Sjálfsmark Phil Jagielka kom síðan í uppbótartíma eftir að Ashley Young hafði átti sendingu fyrir mark Everton.

Everton hefði náð að minnka forskot Aston Villa í 6. sætinu í aðeins eitt stig með sigri en nú munar áfram fjórum stigum á liðunum. 

Wigan náði á sama tíma aðeins markalausu jafntefli á heimavelli á móti hálfgerðu varaliði Portsmouth en Wigan náði þó að komast upp fyrir West Ham með því að ná í þetta stig.

Aston Villa-Everton 2-2

0-1 Tim Cahill (23.), 1-1 Gabriel Agbonlahor (72.), 1-2 Tim Cahill (74.), 2-2 Sjálfsmark (90.+1)

Wigan-Portsmouth 0-0






Fleiri fréttir

Sjá meira


×