Íslenski boltinn

Umfjöllun: Selfoss skipti um gír á lokasprettinum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/valli
Mynd/valli

Selfyssingar unnu góðan sigur á Haukum, 3-0, í nýliðaslagnum á Selfossi í kvöld. Sigurinn gefur ekki alveg rétta mynd af leiknum því Selfyssingar skoruðu tvö mörk með skömmu millibili undir lok leiksins.

Haukar byrjuðu leikinn af miklum krafti og fengu tvö mjög góð tækifæri í upphafi leiks. Fyrst átti Guðjón Pétur Lýðsson skot sem var varið og skömmu síðar var Arnar Gunnlaugsson kominn í gott færi sem fór forgörðum.

Selfyssingar hófu í raun ekki leikinn fyrr en eftir stundarfjórðung og töldu sig hafa skorað fyrsta mark leiksins á 26. mínútu þegar Guðmundur Þórarinsson prjónaði sig í gegnum vörnina og sendi boltann í netið. Aðstoðardómari hafði hins vegar flaggað boltann aftur fyrir endamörk og dæmdi hornspyrnu.

Bæði lið léku varfærnislega og beittu löngum sendingum upp völlinn. Þrátt fyrir að markalaust væri í hálfleik var leikurinn hraður og fjörugur.

Arnar Gunnlaugsson mætti ekki til leiks í síðari hálfleik í liði Hauka vegna meiðsla og Sam Mantom tók stöðu hans í fremstu víglínu. Haukar fengu fyrsta góða færi seinni hálfleiks þegar Hilmar Rafn Emilsson slapp í gegnum vörn heimamanna. Skot hans fór hins vegar víðsfjarri marki Selfyssinga.

Það var sannkallaður heppnisstimpill á fyrsta marki leiksins sem Arilíus Marteinsson skoraði fyrir heimamenn á 68. mínútu. Sævar Þór Gíslason átti þó góðan sprett upp vinstri kantinn og átti hnitmiðaða fyrirgjöf á Arilíus sem spyrnti boltanum í stöngina, í bakið á Daða Lárussyni í marki Hauka, og í netið. Ekki fallegasta markið í bransanum en það taldi svo sannarlega.

Eftir markið tóku heimamenn við sér og nýttu sér glufur í vörn Hauka. Jón Daði Böðvarsson kom Selfyssingum í 2-0 á 84. mínútu þegar hann fylgdi vel eftir skoti Guðmundar Þórarinssonar sem var vel varið af Daða í markinu. Skömmu seinna kláraði Jón Guðbrandsson leikinn með þriðja markinu þegar hann afgreiddi boltann frábærlega í netið eftir aukaspyrnu Guðmundar Þórarinssonar.

Sigur Selfyssinga gefur kannski ekki alveg rétta mynd af leiknum en var fyllilega sanngjarn miðað við hvernig lokamínúturnar spiluðust.

Heimamenn virtust hafa þann aukakraft sem þurfti til að klára leikinn og gerðu það svo sannarlega. Hjá Selfyssingum var Guðmundur Þórarinsson sérlega frísklegur og klappaði boltanum óhikað. Sævar Þór sýndi einnig hvað hann getur með enn einni stoðsendingunni.

Haukar geta verið súrir með að fá ekkert út úr leiknum enda byrjuðu þeir leikinn af miklum krafti og hefðu hæglega getað komist tveimur mörkum yfir snemma leiks. Þetta verður líklega erfitt sumar hjá Haukum.

Selfoss-Haukar 3-0

1-0 Arilíus Marteinsson (67.)

2-0 Jón Daði Böðvarsson (84.)

3-0 Jón Guðbrandsson (88.)

Áhorfendur: 1.082

Dómari: Kristinn Jakobsson 7

Skot (á mark): 15-10 (9-3)

Varin skot: Jóhann 3 - Daði 5

Horn: 3-5

Aukaspyrnur fengnar: 14-11

Rangstöður: 1-3

Selfoss (4-4-2)

Jóhann Ólafur Sigurðsson 7

Andri Freyr Björnsson 6

Stefán Ragnar Guðlaugsson 6

Kjartan Sigurðsson 6

Sigurður Eyberg Guðlaugsson 6

Jón Daði Böðvarsson 6

(90. Ingi Rafn Ingibergsson -)

Ingólfur Þórarinsson 6

Jón Guðbrandsson 6

Guðmundur Þórarinsson 7 - maður leiksins

Sævar Þór Gíslason 7

(83. Ingþór Jóhann Guðmundsson -)

Arilíus Marteinsson 7

(86. Davíð Birgisson -)

Haukar (4-5-1)

Daði Lárusson 5

Gunnar Ormslev Ásgeirsson 5

(84. Kristján Óli Sigurðsson -)

Kristján Ómar Björnsson 5

Daníel Einarsson 5

Pétur Á. Sæmundsson 5

Hilmar Geir Eiðsson 5

Guðjón Pétur Lýðsson 5

Grétar Atli Grétarsson 6

(68. Úlfar Hrafn Pálsson 5)

Hilmar Rafn Emilsson 5

Hilmar Trausti Arnarsson 5

Arnar Bergmann Gunnlaugsson 5

(45. Sam Mantom 5)





Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa lýsingu leiksins hér: Selfoss - Haukar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×