Íslenski boltinn

Willum: Vandræðagangur á okkur allan tímann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Það skein ákveðið vonleysi úr andliti Willums Þórs Þórssonar, þjálfara Keflavíkur, eftir tapið gegn Haukum í dag. Keflavík hefur aðeins unnið einn af síðustu níu leikjum og leikur liðsins í dag var ekki góður.

"Betra liðið vann í dag. Það er hægt að gefa sér einhverjar skýringar á því af hverju þeir virkuðu vinnusamari og viljugri. Þar byrjar þetta. Haukarnir unnu flesta seinni bolta og unnu sig inn í leikinn með meiri vinnusemi. Þar af leiðandi fengu þeir meiri tíma til þess að spila boltanum á milli sín. Við vorum meira að elta og þess vegna voru þeir betri í dag, því miður," sagði Willum svekktur.

"Við reyndum að breyta skipulagi og settum inn nýja menn til þess að hressa upp á okkar leik en það skilaði engu. Það var vandræðagangur á okkur allan tímann," sagði Willum sem vildi samt hrósa Haukaliðinu fyrir fínan leik.

Eins og áður segir gengur hvorki né rekur hjá Keflavík en er Willum til í að viðurkenna að það sé krísa hjá liðinu?

"Við erum í stigakrísu því við vinnum ekki leiki. Það er fullt af leiðum til þess að vinna sig út úr þessari krísu og við verðum að nýta 16 daga fríið sem við fáum núna til þess að vinna vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×