Íslenski boltinn

Kári: Vorum orðnir þreyttir á þessu lagi í upphituninni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Kári Ársælsson, fyrirliði Blika.
Kári Ársælsson, fyrirliði Blika.

Kári Ársælsson, fyrirliði Breiðabliks, átti fínan leik í kvöld þegar Breiðablik vann sannfærandi útisigur á Grindavík 4-2.

„Það var mjög mikilvægt að vinna sigur í kvöld eftir það sem gerðist í seinasta leik. Ég hefði viljað klára þennan leik með því að halda hreinu en sigurinn er það sem skiptir máli,“ sagði Kári.

„Við höfum ekki verið að ná úrslitum í síðustu leikjum og við ákváðum að vera varkárir í byrjun, liggja aðeins aftar og gefa ekki færi á okkur. Það tókst.“

Það var farið yfir andlega þáttinn innan leikmannahóps Breiðabliks fyrir leikinn. „Við höfum aðeins verið að vinna með þeim hjá Capacent. Sigurjón hefur hjálpað okkur með þetta andlega og verið að rýna í hugsun okkar varðandi einbeitingu og annað. Það var einbeitingarleysi í tapleiknum gegn Haukum og þurfti að skerpa á ýmsu,“ sagði Kári.

Fyrir leikinn í kvöld var sama sjómannalagið spilað ítrekað meðan leikmenn voru að hita upp. „Menn voru orðnir frekar þreyttir á þessu lagi sem var í upphituninni, sama lagið gekk tuttugu sinnum í röð og menn voru að verða brjálaðir. Það var fínt að stinga upp í þetta lag og vinna leikinn svona örugglega," sagði Kári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×