Innlent

Ekkert bendir til sátta af hálfu Hollendinga og Breta

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Fjármálaráðherra segir ekkert benda til að Bretar og Hollendingar séu reiðubúnir til nýrra samninga um Icesave við Íslendinga. Norðmenn standi Íslendingum næst allra Norðurlandaþjóðanna en það á eftir að koma í ljós hvort þær standi saman um stuðning þeirra við Íslendinga.

Norðmenn hafa ekki skipt um skoðun varðandi sinn þátt í fjármögnun áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þrátt fyrir synjun forsetans á Icesave-lögunum.

„Staðan er skýr varðandi Noreg og það skiptir geysilega miklu máli og er okkur hjálplegt," segir Stengrímru J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og bætir við að skilningur Noregs setji vonandi þrýsting á hin Norðurlöndin.

Steingrímur segir að Danir horfi öðruvísi á hlutina. Þeir séu aðilar að Evrópusambandinu og horfi einnig í þá átt, ólíkt Norðmönnum. Ekki er því samstaða í málinu meðal Norðurlandaþjóðanna.

Lánið frá Norðurlandaþjóðunum er jafnframt enn háð því að samið verði um Icesave-skuldbindingarnar, en Steingrímur segir að ekkert bendi til þess að Bretar séu tilbúnir að setjast aftur við samningaborðið, ef þjóðin fellir lögin.

„Við verðum að hafa það í huga að samninganefnd verðu ekki sett á laggirnar einhliða með grein í Fréttablaðinu eða öðru. Gagnaðilar þurfa að samþykkja það," segir Steingrímur og bætir við að Bretar og Hollendingar líti svo á að þeir séu búnir að semja við okkur og það tvisvar og það sé ríkisstjórnarinnar að ljúka málinu hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×