Innlent

Erlendir fjárfestar! Komið ekki nálægt Íslandi!

Ríkisstjórnin sendir þau skilaboð að erlendir fjárfestar eigi ekki að koma nálægt Íslandi. Á þessa veru voru viðbrögð stjórnarandstæðinga á Alþingi í dag við þeirri ákvörðun umhverfisráðherra að stöðva Þjórsárvirkjanir. Iðnaðarráðherra telur að höggva eigi á hnútinn þverpólitískt á vettvangi rammaáætlunar.

Landsvirkjun er búin að láta fullhanna þrjár virkjanir í neðri Þjórsá, við Urrriðafoss, Holt og Hvamm. Í fyrstu var lítil andstaða við virkjanirnar og þær runnu í gegnum umhverfismat nær átakalaust fyrir sex árum. En þetta hefur síðan breyst og í gær neitaði Svandís Svavarsdóttir að staðfesta aðalskipulag tveggja sveitarfélaga, með virkjununum inná.

Iðnaðarráðherra treysti sér ekki fyrr í dag til að hafa skoðun á þeim úrskurði. Katrín Júlíusdóttir sagðist enn eiga eftir að fara yfir hann í smáatriðum. Spurð hvort hún vildi að þarna yrði virkjað kvaðst Katrín vilja leyfa sér að geyma þá yfirlýsingu þangað málið væri komið út úr rammaáætlunarnefnd og til þingsins til umræðu. Það segir Katrín lykilfarveg. Þetta eigi ekki að vera skyndiákvörðun hverju sinni heldur faglegt mat og þverpólitískt.

Í þingsal deildu stjórnarandstæðingar hart á Svandísi í dag. Fyrrrverandi umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, kom henni til varnar,- minnti á að hún byggði á úrskurði Kristjáns L. Möllers sveitarstjórnarráðherra frá því síðastliðið sumar, og færði Þórunn ábyrgðina yfir á hann. Menn væru að hengja bakara fyrir smið.

Hún sagði gildandi landslög vera kjarna málsins. Þetta snerist um það hvort tiltekin fyrirtæki, orkufyrirtæki eða önnur, eða kannski verktakafyrirtæki, geti eða geti ekki keypt sér skipulagsgerð.

Sjálfstæðismenn sögðu þetta snúast um allt annað. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði að menn ættu að segja þetta hreint út: Vinstri grænir vilji ekki virkjanir í neðri Þjórsá. Það væri það eina sem væri borðleggjandi í þessu máli.

Jón Gunnarsson sagði flótta brostinn í erlenda fjárfesta. Skilaboð ríkisstjórnarinnar til erlendra aðila, sem hér vilji fjárfesta, séu þau sömu: Komið ekki nálægt Íslandi!










Fleiri fréttir

Sjá meira


×