Innlent

Fækka má slysum með nýjum búnaði

Páll Halldór Halldórsson aksturskappi sýnir hvernig stöðugleikastýring líkt og límir nýjan Volkswagen golf við götuna þótt hart sé ekið og aðstæður erfiðar.
Fréttablaðið/GVA
Páll Halldór Halldórsson aksturskappi sýnir hvernig stöðugleikastýring líkt og límir nýjan Volkswagen golf við götuna þótt hart sé ekið og aðstæður erfiðar. Fréttablaðið/GVA
Væri bílafloti landsmanna allur búinn nýjasta öryggisbúnaði mætti mögulega fækka umferðarslysum um ríflega þúsund á ári hverju. Þetta er mat Bílgreinasambandsins og Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).

Félögin stóðu fyrir skömmu fyrir sýnikennslu þar sem sýndur var munur á aksturshæfni tíu ára gamals bíls og nýs bíls sömu tegundar. Sá eldri var bara búinn ABS-bremsum, en hinn nýjustu tegund stöðugleikastýringar þar sem tölvur stýra hemlun á hverju hjóli fyrir sig.

Ólafur Kr. Guðmundsson, varaformaður FÍB, segir mikið unnið með nýjasta öryggisbúnaði. Þannig safni til að mynda tölvur í loftpúðum og hemlabúnaði gögnum síðustu andartökin fyrir óhapp. „Þetta er eins og pínulítill svartur kassi,“ segir hann. Þá hafi tölvurnar sem stýri loftpúðum jafnvel fengið boð frá tölvunum í hemlunum um að eitthvað hafi farið úrskeiðis sekúndubrotin fyrir óhapp. Ólafur segir að á malarvegum geti þó skapast aðstæður þar sem reyni á stöðugleikastýringuna, en tæknin hafi verið þróuð svo að hún gefst æ betur við slíkar aðstæður.

„Kostirnir eru fleiri en gallarnir, sérstaklega fyrir óvant fólk,“ segir hann og telur að í langflestum tilvikum sé stýringin til bóta á malarvegum og hjálpi til. „En menn sem vilja láta bílinn skrika til í beygjum hata þetta.“

FÍB og Bílgreinasambandið vísa til erlendra rannsókna á notkun stöðugleikastýringar sem benda til þess að stýringin minnki líkur á óhappi um 15 prósent.

„Meðalfjöldi umferðarslysa hér á landi síðustu fimm árin er 7.264 á ári. Varfærin áætlun, sem miðar einungis við 15 prósenta fækkun á slysum, þýðir að slysum gæti fækkað hér á landi um rúmlega 1.000 á ári ef allir bílar væru búnir nýjasta öryggisbúnaði,“ segir í tilkynningu samtakanna. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×