Innlent

Ráðherra gaf út reglugerðir um skötuselsveiðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Bjarnason hefur gefið út reglugerðir um skötusel. Mynd/ GVA.
Jón Bjarnason hefur gefið út reglugerðir um skötusel. Mynd/ GVA.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hefur undirritað tvær reglugerðir er snerta veiðar á skötusel.

Annars vegar er reglugerð þar sem kemur fram að úthlutað er sérstaklega 500 tonnum af skötusel á fiskveiðiárinu 2009 - 2010. Þessi úthlutun er gerð að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnunina. Heimilt er að úthluta á skip allt að 5 lestum í senn gegn greiðslu gjalds, enda hafi viðkomandi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni. Fiskistofa annast þessa úthlutun aflaheimilda sem skal fara fram eigi síðar en 3. maí 2010 á grundvelli umsókna sem borist hafa stofunni eigi síðar en 26. apríl 2010.

Hins vegar er um að ræða reglugerð um veiðar á skötusel í net. Hún fjallar um ýmis atriði er varða umgengni á skötuselsveiðum. Meðal annars eru í henni ákvæði um verndun svæða á Breiðafirði, hámarksstærð og gerð neta, merkingar neta, hámarksfjölda neta og hámarkstíma neta í sjó áður en þau eru dregin. Þá eru í reglugerðinni ákvæði um að óheimilt sé að stunda veiðar með skötuselsnetum á tímabilinu 1. janúar - 30. apríl. Síðan er ekki heimilt á sama tíma að stunda netaveiðar á skötusel og netaveiðar á þorskfiski.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×