Íslenski boltinn

Heimir: Vodafone-völlurinn er heimavöllur okkar í Reykjavík

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV. Fréttablaðið

Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV fer með lið sitt á Vodafone-völlinn í dag þar sem liðið mætir Haukum. Hafnarfjarðarfélagið bíður eftir að aðstaða sín verði klár og spilar því heimaleiki sína á Vodafone-vellinum á meðan.

Heimir fór með ÍBV á völlinn í 2. umferð þar sem liðið gerði 1-1 jafntefli við Val eftir að hafa lent manni færri snemma leiks.

"Við þurfum að halda áfram á sömu braut," sagði Heimir við Vísi í morgun þar sem hann slappaði af á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur.

"Það má segja að Vodafone-völlurinn sé heimavöllurinn okkar í Reykjavík. Við erum að spila annan leikinn okkar þar af fjórum umferðum en við höfum ekki enn spilað í Eyjum," sagði þjálfarinn en fyrsti heimaleikur liðsins verður á sunnudaginn á iðagrænum og glæsilegum Hásteinsvelli.

"Við gerðum gott jafntefli eftir að hafa lent manni undir og svo var FH leikurinn góður hjá okkur. Við förum klárlega í þennan leik til að vinna hann en við þurfum að passa okkur. Við vitum vel hvað Haukarnir geta enda höfum við tapað tvisvar fyrir þeim í vetur," sagði Heimir en staðan á mannskapnum hans er góð.

"Það eru allir klárir nema Úkraínumaðurinn sem verður frá í einhvern tíma í viðbót. En hann er að verða betri," sagði Heimir.

Leikur Hauka og ÍBV hefst klukkan 17.00 í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×