Karlmaður var dæmdur til þess að greiða 25 þúsund króna sekt í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun fyrir að hafa notað einkennisbúning lögreglunnar opinberlega. Um var að ræða stuttermabol sem maðurinn var í við veitingastaðinn Broadway í Ármúla í Reykjavík.
Maðurinn játaði brotið skýlaust og var því dæmdur til sektar. Greiði maðurinn ekki sektina til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins þá skal hann sæta tveggja daga fangelsi.