Innlent

Kannað hvort Bretar og Hollendingar vilji semja að nýju

Höskuldur Kári Schram skrifar

Ríkisstjórnin kannar hvort Bretar og Hollendingar séu tilbúnir að setjast að samningaborðinu að nýju í Icesave málinu. Fjármálaráðherra segir of snemmt að spá fyrir um hvort slíkur vilji sé fyrir hendi. Forsætisráðherra fundar með stjórnarandstöðunni í dag til að ná þverpólitískri sátt í málinu.

Bretar og Hollendingar líta svo á að þverpólitísk samstaða um Icesave málið hér heima sé forsenda þess að hægt verði taka upp nýjar samningaviðræður um Icesave.

Ríkisstjórnin fundaði með stjórnarandstöðunni í gær og aftur verður fundað í dag. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að enn lægi ekki fyrir hvort hægt verði að ná samkomulagi - þó menn séu bjartsýnir.

„Það væri æskilegt ef menn ná saman um næstu skref, ef einhver verða. Nú er það þannig að við vitum í raun og veru ekki hvort að líklegt sé að viðræður komist í gang. En við viljum undirbúa okkar og vera vel undir það búin," sagði Steingrímur.

Aðspurður hvort einvhver vilji til samningaviðræðna hafi komið fram hjá Bretum og Hollendingum segir Steingrímur: „Ég held að það sé varasamt að vera að spekúlera of mikið um það. Það hljóta allir að sjá og skilja. Það er verið að kanna það hvort slíkur vilji sé til staðar en það er ekki komin nein niðurstaða þannig að það best að segja sem minnst á þessu stigi málsins."

Steingrímur segir ótímabært að velta því fyrir sér hvort stefna skuli að því að sleppa fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu og reyna að ná samkomulagi. „Það veltur á því hvort einhverjar viðræður komist af stað og í öðru lagi hvort eitthvað komi út úr þeim. Þannig að óbreyttu er þjóðaratkvæðagreiðslan undirbúin."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×