Innlent

Þjóðaratkvæðagreiðslunni verður hugsanlega frestað

Svo kann að fara að þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin, sem fara á fram 6. mars, verði frestað.

Þingmenn úr röðum stjórnarflokkanna telja mikilvægt að þing og þjóð hafi ráðrúm til að gaumgæfa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis áður en gengið verður til atkvæðagreiðslunnar um Icesave. Þingmenn í stjórnarandstöðunni eru á hinn bóginn þeirrar skoðunar að ekki beri að hrófla við kjördeginum.

Rannsóknarnefnd Alþingis tilkynnti í gær að útgáfa skýrslunnar frestist um nokkrar vikur en áformað var að hún kæmi út fyrir 1. febrúar. Nefndin væntir þess að geta skilað af sér fyrir febrúarlok, „komi ekkert óvænt upp í því ferli sem eftir er," eins og það er orðað.

Málið var rætt á fundi þingflokks Samfylkingarinnar í gær. Björgvin G. Sigurðsson, formaður þingflokksins, segir ótækt að aðeins nokkrir dagar líði á milli þessara atburða. Í skýrslunni kunni að verða upplýsingar sem fólk vilji hafa til hliðsjónar þegar það greiðir atkvæði um Icesave. Ákjósanlegt væri að rannsóknarnefndin tímasetti nákvæmlega útgáfu skýrslu sinnar og að dagsetning þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði ákveðin í framhaldinu.

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, er sama sinnis. Fresta þurfi atkvæðagreiðslunni ef það stefnir í að skýrslan komi út vikuna áður.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, telur ekki ráðlegt að hringla með kjördaginn. Betra sé að útgáfa skýrslunnar taki mið af honum. „Best væri að klára skýrsluna og birta niðurstöðurnar í tíma og ef eitthvað er óunnið gera það í framhaldinu og birta sem viðbótarskjöl. Nú veit ég ekki hvort það er hægt en það væri þá best," segir Sigmundur.

Unnur Brá Konráðsdóttir Sjálfstæðisflokki er sammála Sigmundi. Ekki beri að hrófla við kjördeginum.

Viðmælendum Fréttablaðsins bar saman um að slæmt væri að útgáfa skýrslunnar tefðist.

Vonbrigði, svekkjandi og óheppilegt, voru orðin sem þeir völdu. Töfin væri til þess fallin að auka enn á tortryggnina í samfélaginu.

- bþs





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×