Íslenski boltinn

Bjarni: Það kemur ákveðinn drifkraftur með fögnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar,.
Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar,.
„Þetta var glæsilegur sigur og ég er mjög sáttur með þetta," sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar eftir 5-0 sigur sinna manna á Haukum á grasinu á Vodafone-vellinum í kvöld.

Ólafur Karl Finsen skoraði þrennu í fyrsta leiknum sínum í byrjunarliðinu í Pepsi-deildinni. Hann sá til þess að Stjörnumenn söknuðu ekki tveggja sóknarmanna sem eru horfnir á braut.

„Við seljum bara framlínumennina okkar. Ellert er farinn og Steinþór var seldur. Við erum vel mannaðir núna ólíkt frá því í fyrra,"sagði Bjarni.

„Við byrjuðum leikinn ágætlega og svo voru ákveðnir vendipunktar sem duttu með okkur í þessum leik. Haukaliðið er búið að ganga í gegnum mjög erfiða hluti í sumar en mér fannst þeir alltaf reyna og þeir eiga hrós skilið fyrir það. Við refsuðum þeim bara grimmilega þegar þeir komu fram á völlinn. Bjarni ver líka vítið á frábærum tímapunkti í leiknum," sagði Bjarni.

„Þetta var bara hæfilegt í dag," sagði Bjarni um að Stjörnustrákarnir áttu bara fögn fyrir tvö fyrstu mörkin. „Þeir eru ekki með neinn kvóta á fögnin en ég vil bara að þetta gangi hratt og vel fyrir sig. það er ákveðinn drifkraftur í þessu og meðan hann er fyrir hendi þá er þetta bara gaman," sagði Bjarni.

„Þetta er ferskir drengir og slagkrafturinn í sóknarleiknum okkar er flottur ennþá,"sagði Bjarni sem er ekkert farinn að hugsa um að ná upp í Evrópusætið þótt að liðið hans sé komið alla leið upp í fjórða sætið.

„Við erum rétt að hysja upp um okkur buxurnar eftir hér um bil fallbaráttu. Við skulum allavega anda rólega út þessa viku. Ég tel að það sér frekar langsótt að við föllum úr þessu en við verðum bara að halda áfram, spila sterkt og kraftmikið það sem eftir er og reynaaðþróa okkar leik enn betur," sagði Bjarni að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×