Innlent

Meirihluti mótfallinn lögunum um Icesave

Um 40 prósent þeirra sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Fréttablaðsins vilja að lög um ríkisábyrgð á Icesave, sem forsetinn synjaði staðfestingar, haldi gildi sínu. Sex af hverjum tíu ætla að hafna lögunum.

Mikill munur er á stuðningi við lögin hjá stuðningsmönnum stjórnmálaflokkanna. Aðeins fimmti hver stuðningsmaður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks styður lögin, en þrír af hverjum fjórum stuðningsmönnum Samfylkingarinnar.

Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, að synja lögunum staðfestingar og vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu, nýtur stuðnings mikils meirihluta þjóðarinnar.

Alls sögðust 62,4 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni styðja ákvörðun forsetans, en 37,6 prósent sögðust henni andvíg.

Talsverður munur er á mælingum á afstöðu almennings til ákvörðunar forsetans og laga ríkisstjórnarinnar í þremur könnunum sem gerðar hafa verið í vikunni. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir það benda til þess að fólk hafi ekki fastmótaðar skoðanir og því sveiflist almenningsálitið umtalsvert dag frá degi.

Erfitt sé að setja sig inn í alla þætti málsins en vonandi komist meiri festa á skoðanir fólks þegar nær dregur kosningum, annars sé hætta á því að lítil sátt náist um niðurstöðurnar.- bj /






Fleiri fréttir

Sjá meira


×