Erlent

Tugþúsundir flýja átök í Kirgisistan

Úsbeskar konur og börn við landamæri Kirgisistans og Úsbekist­ans. 75 þúsund Úsbekar hafa flúið yfir til Úsbekistans og þar hafa verið settar upp tímabundnar flóttamannabúðir. fréttablaðið/ap
Úsbeskar konur og börn við landamæri Kirgisistans og Úsbekist­ans. 75 þúsund Úsbekar hafa flúið yfir til Úsbekistans og þar hafa verið settar upp tímabundnar flóttamannabúðir. fréttablaðið/ap

Kirgisistan, ap Um 100 manns hafa látið lífið og að minnsta kosti þúsund hafa særst í átökum í Kirgisistan undanfarna daga. Þá hafa um 75 þúsund Úsbeka þurft að flýja yfir landamærin til Úsbekistan, mest eldra fólk, konur og börn.

Átökin, sem hófust á fimmtudag, voru upphaflega tilraun til að grafa undan bráðabirgðastjórn landsins. Stjórnin hefur setið við völd síðan Kurmanbek Bakiyev, forseti landsins, var gerður útlægur í apríl. Úsbekar, sem eru minnihlutahópur í landinu, hafa stutt bráðabirgðastjórnina en margir Kirgisar í suðurhluta landsins hafa stutt forsetann útlæga. Stjórnin hefur sakað forsetann um að standa að baki óeirðunum, en hann hefur neitað því.

Átökin hafa verið mest í borginni Osh og nálægum þorpum, en dreifðust til borgarinnar Jalal-Abad í gær. Sjónarvottar segja vopnaða hópa Kirgisa fara um í Osh og skjóta á Úsbeka af handahófi. Þá hefur stór hluti borgarinnar verið lagður í rúst í eldsvoðum. Kveikt hefur verið í heilu þorpunum í nágrenni borgarinnar. Þá hefur hópur Úsbeka eyðilagt fjölda bíla og tekið fjölmarga Kirgisa í gíslingu, auk þess sem lögreglustjóri var drepinn í einu þorpinu. Stjórnvöld hafa gefið öryggissveitum leyfi til að skjóta á vopnuðu hópana.

Sameinuðu þjóðirnar auk Bandaríkjamanna og Rússa hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna ástandsins í landinu. Bæði Bandaríkjamenn og Rússar hafa herstöðvar í norðurhluta landsins en hafa ekki skipt sér af átökunum.

Rússar hafa neitað beiðnum stjórnarinnar um aðstoð en sendu í gær liðsauka til þess að verja herstöð sína. Bandaríkjamenn hafa ekki verið beðnir um aðstoð vegna óeirðanna en hafa hjálpað til við að koma matvælum til flóttamanna. thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×