Innlent

Síldargöngur kalla til sín fugla

Náttúrustofa Vesturlands ber hitann og þungann af talningunum sem voru umfangsmeiri en áður. mynd/NSV
Náttúrustofa Vesturlands ber hitann og þungann af talningunum sem voru umfangsmeiri en áður. mynd/NSV
Talningar vetrarfugla á Snæfellsnesi sýna óvenju blómlegt fuglalíf líkt og í fyrravetur. Ástæðan er mikil síldargengd í Breiðafirði.

Talningin fór fram í kringum áramótin en að þessu sinni voru fuglar taldir mun víðar á Snæfellsnesi en áður. Á talningarsvæðunum voru samtals um tuttugu þúsund fuglar af 33 tegundum.

Algengasti fuglinn var æðarfugl en þar á eftir komu hvítmáfur og svartbakur. Af einstökum talningarsvæðum voru flestir fuglar í Grundarfirði, 6.562 talsins.

Náttúrufræðistofnun tekur við niðurstöðum talninganna og búast menn þar á bæ við að talið hafi verið á um 170 svæðum á Íslandi í ár.

Eins og áður sagði er síldargöngum þakkað hversu mikið og fjölbreytt fuglalífið er á Snæfellsnesi. Síldargöngurnar hafa undanfarna vetur verið gríðarlegar og flotinn hefur tekið megnið af leyfilegum síldarkvóta uppi í harða landi við Breiðafjörð. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×