Innlent

Gjöld vegna komu barna á slysadeild afnumin

Gjöld vegna komu barna á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahús hafa verið afnumin með nýrri reglugerð sem heilbrigðisráðherra gaf út og tók gildi um áramótin.

Samkvæmt þessari nýju reglugerð muni komugjöld í heilsugæslunni ekki breytast, komugjöld barna á slysa- og bráðadeildir falla hins vegar niður sem og gjald vegna vitjana lækna til barna

Á móti kemur að hámarksgreiðslur fyrir hverja aðgerð, eða skoðun, og þak vegna afsláttarkorts hækkar um 400 til 2000 krónur. Gjöld sem sjúkratryggðir greiða fyrir heilbrigðisþjónustu utan heilsugæslu hækka líka sem og gjald vegna bólusetninga og annarrar þjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvum. Hækkunin er í flestum tilfellum í samræmi við hækkanir efniskostnaðar

Í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að markmið reglugerðarinnar sé að tryggja jafnt aðgengi að heilsugæslunni með því að halda komugjöldum óbreyttum.

Ráðherra hafi haft það að leiðarljósi að auka ekki útgjöld barnafjölskyldna vegna heilbrigðisþjónustu og að stilla almennri hækkun komugjalda í hóf þótt almennar verðbreytingar hafi í raun kallað á meiri hækkun

Reiknað er með að breytingarnar skili 150 milljón króna tekjuauka fyrir ríkissjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×